Þýsk herþyrla á bakvakt – mbl.is

  • by fg
  • 14 Years ago
  • 0

Berlin, mynd: mbl.is

Sea King þyrla þýska herskipsins Berlin verður á bakvakt fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar dagana 14.-18. apríl eða þá daga sem skipið er í kurteisisheimsókn í Reykjavík, ásamt þýsku freigátunum Brandenburg og Rheinland-Pfalz.

Að sögn Landhelgisgæslunnar er verið að klára skoðun á TF-LÍF og sé  þýska þyrlan því til til aðstoðar TF-GNÁ, ef kemur að útkalli og þörf sé á að fljúga út fyrir 20 sjómílurnar.

Þýska herskipið Berlín er meðal stærstu skipa þýska flotans, 174 metrar að lengd og útbúið færanlegri sjúkra- og bráðadeild sem hægt er að flytja á dekk skipsins eða í land. Með skipunum þremur koma samtals 687 manns. Til samanburðar má nefna að lengd íslensku varðskipanna Ægis og Týs er mest 70 metrar. Þór, sem væntanlegur er til landsins í haust er 94 metrar.

Skipin koma til Íslands frá Skotlandi en meðan á dvölinni stendur verða þau við Skarfabakka og Sundabakka.

Við komuna til Reykjavíkur í fyrramálið eru fyrirhugaðar æfingar með þyrlu Landhelgisgæslunnar og að þeim loknum mun Sea King þyrla Berlin fylgja TF-GNÁ í flugskýli Landhelgisgæslunnar.

Almenningi er boðið að skoða skipin á laugardag og sunnudag kl. 13-16  þar sem þau verða staðsett við Skarfabakka og Sundabakka. Einnig eru fyrirhugaðar  kurteisisheimsóknir áhafnar skipanna til ýmissa opinberra aðila. 

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *