Nýlega var haldið bingó í matsal Júlíusar., eða héreftir nefndum Júllabæ. Margt góðra vinninga var á boðstólum, svosem jólabjór, örbylgjupopp, útrunnið Fanta og ýmislegt góðgæti sem sjoppan gaf í bingóið. Ekki má gleyma að hluti af aðalverðlaununum var litabók og litir sem þótti mikill happafengur að hljóta. Síðast en ekki síst var líka í aðalvinning hvorki meira né minna en eiginhandaráritun frá Gutta en fróðir menn telja að einhverntímann muni hún verða afar verðmæt!
Ekki verður annað sagt en að mæting hafi verið afar góð og menn greinilega spenntir fyrir bingóinu. Mátti heyra saumnál detta á tímabili er spennan jókst og einbeitnin skein úr svipum skipverja er hver talan af annarri var lesin upp. Oft heyrðust líka niðurbældar spennustunur er lesið var upp og oft munaði mjóu hjá mörgum. Áttu margir erfitt með að sofna eftirá, þar sem spennustigið var mjög hátt.
Svo fór að Maggi Snorra hreppti 3ja vinning, Sverrir Halldórs hlaut annan vinning og sá sem hreppti aðalvinninginn og þar með lítabókina og litina var Ómar Freyr.
Er ljóst eftir þetta bingó að þessu verður haldið áfram, þar sem þetta er kærkomin tilbreyting hér úti á sjó.
Magnús ljósmyndari festi þetta á filmu og fylgja hér nokkrar myndir með.