Júllinn.is hafði samband við Finnboga Sveinbjörnsson formann Verkvest og innti frétta af árlegum aðalfundi sjómannadeildar félagsins;
Það var ágætis mæting á fundinn, en mikið vill alltaf meira. Reyndar voru
það eingöngu togarasjómenn sem mættu, engir smábátasjómenn eða sjómenn af
öðrum bátum eða skipum. Fundarsókn hefur verið mjög slök undanfarin ár, hver
skýring er skal ég ekki segja til um. En vonandi að betri þátttaka viti á
gott.
Engar ályktanir voru samþykktar á fundinum en farið var yfir stöðu
samningamála en þar situr allt pikk fast. Ríkissáttasemjari hefur boðað til
fundar 8 janúar til að sjá hvort hægt verði að mjaka öðrum málum en þeim sem
aðilar eru sammála um að vera ósammála um. Þar á ég við breytingar á
hlutaskiptakerfinu og sjómannaafsláttinn. Almennt voru fundarmenn á því að
þrýsta þurfi á betri og skarpari vinnubrögð við samningsgerðina. Ekki komi
til greina að Kjarasamningur sjómanna á Vestfjörðum verið felldur inn í
kjarasamning Sjómannasambandsins. Á fundinum var farið yfir fræðslumál
sjómanna og var almennt gerður góður rómur að kynningarátaki sem
fræðslusjóður sjómanna stóð fyrir hjá útgerðum hér í lok árs.
Réttindamál afleysingasjómanna voru til umræðu og hvernig væri hægt að
tryggja réttindi þeirra betur. Var mál manna að þar væri skortur á samstöðu
og barátta um föst pláss sem riðu baggamuninn að ekki hefði náðst árangur í
að sporna við endurteknum ráðningarsamningum útgerða í stakar sjóferðir.
Eins og atvinnustaðan væri í dag væri erfitt að setja sig gegn ríkjandi
kerfi útgerðanna við mönnun skipa.
Þá var hugur i mönnum vegna kappróðrabáta félagsins sem eru komnir í viðhald
hjá Menntaskólanum. Var jafnvel talað um að hóa saman í lið sjómanna fyrir
kappróður á sjómannadegi. En hátíðarhöld á sjómannadag voru einnig til
umræðu ásamt heiðrun aldraðra sjómanna.
Stjórn sjómannadeildar var endurkjörin einróma. En í stjórninni eru Sævar
Gestsson, Ísafirði, formaður, meðstjórnendur þeir Grétar Þ. Magnússon,
Ísafirði og Ólafur Skúlason, Þingeyri. Til vara Magnús Björgvinsson,
Flateyri, Símon Viggósson, Tálknafirði og Höskuldur B. Gunnarsson,
Þingeyri.