Björgúlfur EA 312 kom til heimahafnar á Dalvík í dag með fullfermi eða 115 tonn af fiski. Uppistaðan er þorskur sem fer beint til vinnslu í frystihúsinu á Dalvík. Aflaverðmæti í túrnum eru rúmar 25 milljónir króna. Með þessari löndun hefur Björgúlfur veitt fyrir yfir 1000 milljónir á árinu og er það í fyrsta skipti sem skipið veiðir fyrir meira en milljarð á einu ári.
Í tilefni af þessum tímamótum var áhöfninni færð rjómaterta við heimkomuna, segir á vef Samherja.
Björgúlfur hefur alla tíð aflað fyrir fiskvinnsluna á Dalvík frá því að hann kom nýr árið 1977.
„Árangurinn í ár er glæsilegur ekki síst í ljósi þess að skipið var stopp í 5 vikur í sumar. Á síðasta ári var aflaverðmæti skipins 970 milljónir en það eru líklega 3 landanir eftir á árinu svo skipið fer vel yfir milljarðinn í ár. Þrátt fyrir mikinn afla hefur áhöfnin lagt sig fram um að skila úrvalshráefni fyrir vinnslu félagsins, en gæði og sölumöguleikar stýra alfarið veiðum skipsins á hverjum tíma”, segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðar Samherja hf., á vef Samherja.