Afli og nýting aflaheimilda fiskveiðiárið 2010/2011 og samanburður við síðusta fiskveiðiár
Afli íslenskra skipa í botnfiski var 35.711 tonn í ágúst. Mest var um þorsk í aflanum eða 11.707 tonn og ufsi var 7.672 tonn. Heildarþorskafli sem reiknaður er til kvóta var 106.813 tonn á nýliðnu fiskveiðiári en var 109.271 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009. Þetta er samdráttur um 2,2%. Ýsuaflinn var einnig minni eða 42.578 tonn samanborið við 55.965 tonn á þar síðasta fiskveiðiári.
Samdráttur í botnfisk- og uppsjávarafla en aukning í skel- og krabbadýraafla
Heildarbotnfiskafli íslenskra skipa á síðasta fiskveiðiári var 490.421 tonn en var 532.462 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009. Þetta er samdráttur upp á 7,9% milli ára.
Verulegur samdráttur var einnig í uppsjávarafla. Á síðasta fiskveiðiári var aflinn 565.194 tonn en var 707.473 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009. Mestu munaði um að veiðar á íslenskri sumargotssíld var einungis 48.445 tonn á síðasta fiskveiðiári en var 153.238 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009. Umtalsverður samdráttur var einnig í kolmunna og norsk-íslenskri síld.
Veruleg aukning varð í afla á skel- og krabbadýrum milli síðustu fiskveiðiára. Heildaraflinn á síðasta fiskveiðiári var 10.636 tonn en var 6.495 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009. Aukningin stafar af mikilli aflaaukningu í úthafsrækju. Á síðasta fiskveiðiári var aflinn 7.141 tonn en 3.955 tonn á fiskveiðiarínu 2008/2009.
Aflamarksskip fullnýttu heimildir í þorski
Nú þegar fiskveiðiárið er liðið hafa aflamarksskip fullnýtt aflaheimildir sínar í þorski og níu öðrum tegundum en kvóti í níu öðrum tegundum voru ekki nýttar að fullu. Í ýsu nýttu aflamarksskip 81,7% veiðiheimilda, langlúru 51% og sandkola um 52,6%. Það vekur athygli að aflamarksskip nýttu 11.4% af aflamarki sínu í skrápflúru.
Krókaaflamarksbátar fullnýttu heimildir sínar á síðasta fiskveiðiári í öllum tegundum nema ufsa, en þar nýttu þeir 47,6% veiðiheimilda.
Undirmálsafli dregst saman um tæp 20% milli fiskveiðiára
Á síðasta fiskveiðiári nýttu íslensk veiðiskip 4.212 tonn í verkefnasjóð sjávarútvegsins (vs-afli) samanborið við 4.267 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009. Þorskaflinn sem nýttur var í verkefnasjóðinn var 3.394 tonn en var á fiskveiðiárinu 2008/2009 3.877 tonn. Afli sem ekki hafðiverið skráður til aflamarks hlutaðeigandi fiskiskipa vegna svokallaðrar línuívilnunar var meiri á síðsta fiskveiðiári en á fiskveiðiárinu 2008/2009.
Á síðasta fiskveiðiári voru 4.482 tonn nýtt til línuívilnunnar en á fiskveiðiárinu 2008/2009 voru það 4.052 tonn. Helst var að merkja breytingar í þorski eða 2.214 tonn samanborið við 1.857 tonn á fiskveiðiári 2008/2009. Minni afli var skráður sem undirmálsafli og reiknaður til aflamarks með ívilnandi hætti en á fiskveiðiárinu 2008/2009 eða 2.414 tonn samanborið við 2.969 tonn. Annar afli sem hefur ekki reiknast til aflamarks er 8.079 tonn en mestur hluti hans fékkst við veiðar strandveiðibáta í sumar.
Frekari upplýsingar um afla og nýtingu aflaheimilda í ágúst er að finna á síðunni aflatölur Fiskistofu.
Tekið af vef Fiskistofu