Aflaverðmæti vestfirskra skipa nam 2,3 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2010 samanborið við 1,8 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmætið hefur því aukist um 27,8% á milli ára. Aflaverðmætið í apríl var 512 milljónir en var 379 milljónir í apríl í fyrra. Alls komu 10.675 tonn á land á Vestfjörðum á fyrstu fjórum mánuðum ársins sem er minna en á sama tímabili í fyrra þegar 11.474 tonnum var landað. Var allur aflinn veiddur á Íslandsmiðum. Ef litið er á landið í heild nam aflaverðmæti íslenskra skipa 45,6 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2010 samanborið við 35 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um 10,6 milljarða eða 30,2% á milli ára.
Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 20,3 milljörðum króna og jókst um 38,2% frá árinu 2009. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 42,6% milli ára og var um 7,4 milljarðar. Aflaverðmæti sjófrystingar var tæpir 14 milljarðar sem er 46,3% aukning milli ára.
Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.