„Það er margbúið að benda á að frystitogarar eru lengur úti en sem nemur opnun kjörstaða fyrir utankjörfundaratkvæði. Þetta þýðir að í raun er verið að svipta hluta sjómanna atkvæðisréttinum sem er óásættanlegt,“ segir Sverrir Pétursson, útgerðarstjóri HG.
Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS kom í land síðdegis á laugardag en upphaflega var áætluð heimkoma á sunnudeginum. „Við stoppuðum aðeins í klukkutíma á laugardaginn, eingöngu til þess að strákarnir gæti komist á kjörstað. Svo var aftur farið út og dólað í Ísafjarðardjúpinu á meðan menn kláruðu að þrífa og loks var komið í land á sunnudagsmorgninum eins og upphaflega stóð til,“ segir Sverrir.
Sverrir segir að Júlíus hafi gert ágætis túr. „Nú er verið að landa verðmætum upp á 150 milljónir og aflinn var aðallega grálúða, ýsa og þorskur. Áætluð brottför er svo á fimmtudaginn,“ segir Sverrir.