Togarnir Júlíus Geirmundsson ÍS 270 og Páll Pálsson ÍS 102, sem báðir eru í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar, slóu nýtt met í aflaverðmæti á árinu sem er að líða. Páll Pálsson kom með 4.445 tonn að landi og var verðmæti aflans 987 milljónir króna. Þetta er umtalsverð aukning frá árinu 2009 þegar aflaverðmætið var 790 milljónir króna, en hins vegar var aflinn einungis sjö tonnum meiri í ár miðað við árið 2009. Afli frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar var 3.716 tonn á árinu að verðmæti 1.323 milljónir króna eða 47 milljónum meira verðmæti en á síðasta ári þó svo aflinn hafi verið 217 tonnum minni í ár en í fyrra.
„Árið var merkilegt m.a. vegna markrílveiða, en ef ekki hefði komið til þeirra hefðum við þurft að stoppa Júlíus í mánuð,“ segir Sverrir Pétursson, útgerðarstjóri HG. „Júlíus veiddi makríl fyrir um 100 milljónir króna og af þeim greiddi útgerðin um 40 milljónir í laun og launatengd gjöld. Árið var líka gott hjá Stefni þó ekki hafi nein met verið slegin, en aflinn var 2.850 tonn að verðmæti 707 milljónir króna. Stefnir og Páll voru hvor um sig frá veiðum í um 5 vikur í sumar, þar af fóru 2 vikur í slipp en restin af stoppinu var vegna skorts á aflaheimildum,“ segir Sverrir, sem sér blikur á lofti á nýju ári.
„Allur sjávarútvegur landsins er sem lamaður vegna yfirvofandi fyrningu aflaheimilda og menn halda að sér höndum í öllum framkvæmdum. Það er óþolandi að þeir sem þoldu niðurskurðinn eigi ekki að njóta þess þegar betur árar. Ef við þurfum að leigja viðbótar aflaheimildir af stjórnvöldum er ég sannfærður um að það fé sem ríkið fengi fyrir þær kæmi aldrei vestur aftur, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Þetta yrði aldrei annað en einn landsbyggðaskatturinn í viðbót.“