30. December 2011

BB.is – Frétt – Metár hjá Júlíusi Geirmundssyni

  • by fg
  • 13 Years ago
  • 0

Árið sem er að líða var það besta hjá frystiskipinu Júlíusi Geirmyndssyni ÍS 270. Sverrir Pétursson útgerðarstjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., sem gerir Júlíus út, áætlar að aflaverðmæti skipsins sé um 1.600 milljónir króna, þrátt fyrir að skipið hafi verið fjórar vikur frá veiðum er það var í slipp. Sverrir telur að makrílveiðarnar hafi skipt sköpum. „Þetta er annað árið í röð sem skipið er á makrílveiðum og þar var aflaverðmætið um 340 milljónir króna og það er viðbót við það sem var árið 2010,“ segir Sverrir. Júlíus hefur verið bundinn við bryggju yfir jólahátíðina og heldur að nýju til veiða mánudaginn 2. janúar.

Veiðin hjá öðrum skipum HG var þokkaleg á árinu. Valur ÍS hefur verið á veiðum í Ísafjarðardjúpi. „Hann á svolítið eftir af kvóta og verður áfram á rækjuveiðum fram á nýja árið. Veiðin í Djúpinu hefur verið góð og fáheyrt að menn hafa verið að veiða svona vel. Hins vegar liggur óvissan um framtíð kvótakerfisins eins og mara á okkur og af þeim sökum er allt í biðstöðu hér líkt og hjá flestum öðrum fiskvinnslufyrirtækjum í landinu. Það hefur hvorki verið farið í að endurnýja fiskvinnslutæki né bátaflotann sem er að verða frekar gamall, t.d. er Páll Pálsson ÍS að nálgast fertugsaldurinn og Stefnir varð 35 ára á árinu,“ segir Sverrir.

Kvótaúthlutun var svipuð og menn áttu von á og að sögn Sverris var ekkert þar sem kom á óvart. „Við höfum verið á makrílveiðum annað árið í röð en við náðum mun betri tökum á veiðunum í ár en í fyrra sem var hálfgert tilraunaár. Núna vonum við að makrílveiðarnar séu komnar til að vera. Þá eigum við smá síldarkvóta en töluvert af síld kom með makrílnum þannig að við gátum nýtt þann kvóta einnig,“ segir Sverrir.

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *