„Ofurtrú á trillu og smábátavæðingu á einu erfiðasta hafsvæði í veröldinni, snurvoðaflotinn tekinn af lífi án nokkurra raka. Skötuselurinn. Rækjan gefin frjáls þegar loks fór að líta út fyrir að mögulegt væri að gera út á þann veiðiskap án þess að um mígandi hallarekstur væri að ræða. Allir sendir á makríl, margir hverjir án þess að vera á nokkurn hátt í stakk búnir til þess að stunda þær veiðar af einhverju viti eða skynsemi,“ segir Árni einnig í greininni.
Árni gagnrýnir einnig viðbrögð ráðherra við niðurstöðu sáttanefndar ráðuneytisins. „Þorri þeirra sem í nefndinni sátu skiluðu af sér því sem óskað var eftir. Sáttatillögu sem menn töldu vænlega til mun víðtækari sáttar en verið hefur. Ef hann væri samkvæmur sjálfum sér í því að vilja í einlægni nálgast þjóðarsátt, þá færi hann að sjálfsögðu eftir tillögum nefndarinnar. Ekki er með neinu móti hægt að merkja að það standi til, heldur er miklu fremur engu líkara en að markmiðið felist í því að ná sátt við þá þjóðfélagsþegna sem hafa lifibrauð sitt af öðru en sjávarútvegi og sýna þá þeim sem í greininni starfa puttann í leiðinni.“