Áhöfnin á Júlíusi Geirmundssyni ÍS skoraði á körfuknattleiksdeild UMFB í æfingarleik í síðustu viku. „Innan vébanda þeirra eru nokkrar valinkunnar kempur sem gerðu garðinn frægan með KFÍ og Fúsíjama BCI í byrjun aldarinnar og því ljóst að það yrði við ramman reip að draga hjá Bolvíkingum,“ segir á vef UMFB. Leikur var hnífjafn frá byrjun en Bolvíkingar sigu fram úr síðustu 39 mínúturnar og sigruðu 94-53.
Hjá Bolvíkingum voru vængmennirnir Daníel Midgley og Gunnlaugur Gunnlaugsson atkvæðamestir en Daníel daðraði við fernuna með 18 stigum, 9 fráköstum, 8 stoðsendingum og 7 stolnum boltum. Gunnlaugur skilaði svo 17 stigum og 9 fráköstum.
Guðmundur Matthías Guðmundsson var yfirburðarmaður hjá Júlíusi Geirmundssyni með 27 stig, 5 þriggja stiga körfur og 9 fráköst en honum næstur kom Sverrir Örn Rafnsson með 8 stig og 8 fráköst.