Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var í meðallagi í árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunar á rækju á grunnslóð og var aðeins hærri en árið 2009. Hlutfall ungrækju af heildarstofninum var í meðallagi. Líkt og verið hefur undanfarin ár var helsta útbreiðslusvæði rækju innst í firðinum. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að rækjuveiðar verði leyfðar í Arnarfirði í vetur með 400 tonna hámarksafla. Könnuð voru sex svæði: Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói, Skagafjörður, Skjálfandi og Öxarfjörður. Niðurstöður leiðangursins sýndu að litlar breytingar voru á stærð rækjustofna á öðrum svæðum en Arnarfirði og ekki voru lagðar til veiðar fyrir veturinn annars staðar.
Nýliðun var betri en síðustu ár. Það fannst hlutfallslega mikið af ungrækju í Skagafirði og Skjálfanda en þar hefur nýliðun ekki mælst meiri síðan fyrir hrun stofnanna rétt fyrir aldamótin. Almennt var mun minna eða svipað magn af ýsu en í fyrra. Þó voru tvö svæði sem skáru sig úr, Ísafjarðardjúp og Húnaflói, en þar var ýsumagn langt yfir meðaltali áranna 1996 til 2010. Á öllum svæðunum var mest af ýsu yfir 30 cm en magn ýsu undir 30 cm var undir meðaltali síðustu ára.
Þorskmagn var hins vegar svipað eða meira en í fyrra. Aðeins mældist minna þorskmagn í Ísafjarðardjúpi en á síðasta ári. Mestu breytingarnar voru í Arnarfirði, þar sem fjöldi þorska hefur ekki mælst svo mikill síðan 2005 og í Skagafirði þar sem þorskmagn hefur ekki mælst meira síðan 2002.
Mælingin fór fram á Dröfn RE 35 á tímabilinu 4.-26. október.