Á þeim forsendum að vinnsluleyfi fiskverkunarhússins hafi verið hafnað vegna breytingar á legu vegarins í tengslum við framkvæmdir við Bolungarvíkurganga hefur Guðmundur Páll Óskarsson, eigandi fyrirtækisins, farið fram á við Ísafjarðarbæ að gengið verði til samningu um uppkaup á húsinu eða kallaðir verði til matsmenn til að ákveða kaupaverð.
„Nú veldur gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki sömu nota og áður og á þá sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að hann leysi fasteignina til sín,“ segir í bréfi Guðmundar til bæjaryfirvalda.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur óskað eftir áliti bæjarlögmanns, á þeirri stöðu sem nú er upp komin í máli Guðmundar Páls Óskarssonar og fyrirtækis hans í Hnífsdal.