Það sem af er fiskveiðiárinu hafa krókaaflamarksbátar veitt um 4.513 tonn af ýsu sem er 48% af úthlutuðum heimildum. Það hefur því gengið hratt á ýsukvótann þótt ekki séu liðið nema tæplega þriðjungur af fiskveiðiárinu og er kvótaleysið farið að segja til sín. Sigurður Kjartan Háldánarson, formaður Eldingar, félags smábátasjómanna á norðanverðum Vestfjörðum, segir að margar útgerðir séu komnar í vanda. „Það er orðið mjög erfitt hjá mörgum og þá sér í lagi hjá þeim sem hafa hingað til leigt til sín ýsukvótann, en leigumarkaðurinn er meira og minna frosinn. Þau viðskipti sem eiga sér stað virðast helst vera greiðastarfsemi þar sem kvótaeigendur eru að hlaupa undir bagga með kunningjum sínum,“ segir Sigurður.
„Ýsuveiðin hefur verið góð þótt sóknin hafi dregist mikið saman. Það hefur verið mikil aukning á smáýsu síðastliðin tvö ár. Og maður veltir fyrir sér þessari skerðingu í ljósi þess hve ýsugengdin hefur verið góð. Hún hefur breyst nokkuð undanfarin ár og er nú t.d. á öðrum tíma en maður átti að venjast. En í mínu tilfelli er ég að keppast við að fá þorsk og þarf að hafa mikið fyrir því að sneiða fram hjá ýsunni,“ segir Sigurður.
Aðspurður hvort þessar aðstæður auki ekki hættuna á brottkasti segir Sigurður ekki telja svo vera. „Mín tilfinning er sú að menn séu hræddir við að vera gripnir og taka ekki áhættu á að vera sviptir veiðileyfi. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem grípa til þessa ráðs enda sumir komnir alveg upp undir vegg og taka því þennan pól í hæðina, en ég held að þetta hafi farið minnkandi,“ segir Sigurður.