„Sjómennirnir sem færa okkur björg í bú þurfa á þykku sjómannabeikoni að halda og er það von okkar að áhafnarmeðlimir Júlíusar Geirmundssonar ÍS taki gleði sína á ný í næsta aflatúr og borði beikon í hvert mál. Við hjá Reykavík beikon festival segjum alltaf að beikon sé gleði og knús og sé án landamæra og færi ánægju til allra. Það er allavegana ljóst að við landkrabbarnir fyrir sunnan leggjum höfuðið á koddann með bros á vör í kvöld vitandi af lítilli beikonhátíð um borð í Júllanum“ segir Árni Georgsson beikonbróðir í tilefni þess að félagarnir hjá Hinu íslenska bacon bræðralagi hafa bætt áhöfn Júllans beikonið sem stolið var á dögunum, með óvæntri gleðisendingu.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi beikons við matseldina um borð. Það glæðir ýsuna, þorskinn, karfan og steinbítinn nýju lífi og gerir hversdagsrétti að veislumat. Fyrir tilviljun rambaði einn af aðstandendum hinnar árlegu beikonhátíðar í Reykjavík inn á heimasíðu Júllans og las harmafréttina þar sem greint var frá beikonráninu. Beikonbræðralaginu rann blóðið til skyldunnar og hafði strax samband við Sófus Sigurðsson hjá Ali sem skar þverhandarþykkar sneiðar af sérvöldu beikoni og sendi 10 kíló vestur.
„Það verður að segjast eins og er að menn setti hljóða er þetta fréttist um borð. Menn voru fyrir löngu búnir að afskrifa svona góðmennsku og héldu að þetta heyrði bara sögunni til. En þegar búið var að sannfæra skipverja um að þetta væri sannleikur, brutust út mikil fagnaðarlæti og lofuðu menn Hið íslenska bacon bræðralag í hástert. Flugu ýmis hástemmd hrósyrði þeim til handa og þótti sýnt að þeim yrði seint fullþakkaður rausnarskapurinn,“ sögðu skipverjar á Júllanum á vefsíðu sinni.
BB.is -Reykjavík beikon festival kom til bjargar
- by fg
- 12 Years ago
- Comments Off
