Eins og kunnugt er sinnir flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF nú tímabundnum verkefnum erlendis fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Meðan á því stendur býðst Landhelgisgæslunni að leita til flugvélar Mýflugs TF-FMS, þegar hún er tiltæk. Er þó ætíð nauðsynlegt að tveir skipstjórnarmenn frá Landhelgisgæslunni séu um borð með eftirlitsbúnað. TF-FMS er ekki sérútbúin til eftirlitsstarfa en hún er með búnað til að greina skip ( AIS búnað) og einfaldan radar búnað, er hún auk þess með ágæta útsýnisglugga til leitar. Flugvélin er er engu að síður ekki ákjósanleg til langvarandi löggæslu- og eftirlitsstarfa eins og TF-SIF er ætlað að geta gert enda hefur hún ekki sambærilegt langdrægi, flugþol né aðstöðu fyrir áhöfn.
Síðastliðinn laugardag fóru skipstjórnarmenn Landhelgisgæslunnar í eftirlitsflug með TF-FMS og var flogið um hafsvæðið út Faxaflóa og djúpslóð að Halamiðum þar sem ellefu íslenskir togararar voru að veiðum. Samband náðist við togara sem sagði ufsaveiði góða á svæðinu en ekkert hafði veiðst af þorski í tvo daga.
Hefur TF-FMS áður verið notuð í fjarveru eða sem viðbót við flugvél Landhelgisgæslunnar og er öryggi að geta leitað til Mýflugs þegar nauðsyn þykir en áætlað er áframhaldandi eftirliti úr lofti með flugvélinni.
Mynd Baldur Sveinsson.
Tekið af vef Lanhelgisgæslunnar www.lhg.is