Talsvert hefur dregið úr nýliðun nokkurra hrygningarstofna í Norðaustur-Atlantshafi. Verður verulega dregið úr veiðum á norsk-íslensku vorgots síldinni á næsta ári og fá Íslendingar heimild til að veiða 143 þúsund tonn. Í ár var hlutur Íslendinga 215 þúsund tonn. Eins kemur minna af kolmunna í hlut Íslendinga á næsta ári en í ár. Fá Íslendingar að veiða 7 þúsund tonn af kolmunnanum í stað 88 þúsund tonna í ár.
Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar.
Nýlokið er fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins þar sem fjallað var um ástand nokkurra nytjastofna í Norðaustur-Atlantshafi og tillögur um nýtingu þeirra.
Ekki vitað hvað veldur minnkun hrygningarstofns síldar
Í júní s.l. kynnti ráðið tillögur um flesta þá nytjastofna sem Íslendingar stunda veiðar úr en þó eru þrír stofnar sem veitt er ráðgjöf um nýtingu nú og Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar á. Það eru norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll.
Árgangar norsk-íslensku vorgotssíldarinnar yngri en 2004 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn munu minnka á næstu árum. Samkvæmt nýjasta mati á stærð stofnsins hefur hann minnkað meira en gert var ráð fyrir.
Vegur þar þyngst niðurstaða úr árlegum fjölþjóða bergmálsleiðangri á fæðuslóð í maí 2010. Matið á lífmassa í leiðangrinum í vor var um 40% lægra en samsvarandi mat í fyrra. Allir árgangar voru metnir minni en að var gert var ráð fyrir. Engin augljós ástæða er fyrir þessari lækkun. Í júlí í ár var farið í annan leiðangur og staðfesti hann niðurstöðu leiðangursins frá því í maí, segir á vef Hafró.
Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn árið 2010 talinn vera um 9 milljónir tonna og að hann hafi verið 10 milljónir tonna árið 2009, sem er 26% lægra en matið á honum í fyrra. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn fari enn minnkandi og verði um 6,7 milljónir tonna árið 2012.
Á grundvelli þessa verður aflamark fyrir 2011, 988 þúsund tonn, en það er samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum. Þar af verður hlutdeild Íslendinga um 143 þús. tonn (14.5%). Til samanburðar þá var aflamark fyrir árið 2010 um 1500 þúsund tonn og hlutdeild Íslands 215 þúsund tonn.
Árgangar kolmunna yngri en 2004 í sögulegu lágmarki
Á árunum 1996-2004 var mjög góð nýliðun í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn stækkaði í um 7 milljónir tonna á árunum 2003 og 2004, en hefur farið minnkandi síðan vegna minnkandi nýliðunar. Árgangar yngri en 2004 eru allir metnir nálægt sögulegu lágmarki.
Í fyrra var hrygningarstofninn árið 2009 talinn vera um 3.6 milljónir tonna, en skv. matinu í ár er hann talinn hafa verið 2.1 milljón tonna eða um 42% minni. Hrygningarstofninn árið 2010 er nú metinn 1.3 milljón tonn, sem er undir varúðarmörkum (Blim).
„Stofnmatið er háð nokkurri óvissu en engu að síður er lítill vafi um þróunina í stofninum. Ljóst er að vegna mjög lélegrar nýliðunar mun stofninn halda áfram að minnka á næstu árum. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 800 þús. tonn árið 2012 ef afli verður samkvæmt aflareglu,” segir á vef Hafró.
Á grundvelli þessa verður aflamark fyrir 2011 40 þúsund tonn, en það er samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum. Þar af hlutdeild Íslendinga um 7 þús. tonn (17.6%). Til samanburðar þá var aflamark fyrir árið 2010 um 550 þúsund tonn og hlutdeild Íslendinga 88 þúsund tonn,” segir á vef Hafró.
Gott ástand á makrílnum
Hrygningarstofn makríls var nokkuð stöðugur á árunum 1980-2001, um 2,4 milljónir tonna, en minnkaði síðan og var um 1,8 milljónir tonna á árunum 2002-2004. Frá því 2004 hefur hann stækkað aftur og er nú metinn vera um 2,9 milljónir tonna árið 2010. Samkvæmt stofnmati í ár er hrygningarstofninn árið 2009 metinn hafa verið um 15% stærri en áður hafði verið áætlað.
Bráðabirgða vísitala hrygningarstofns makríls árið 2010 var um 26% hærri en sú frá árinu 2007 og hefur hún áhrif til hækkunar á stofnmati.
Árgangurinn frá 2002 er metinn mjög stór, sá stærsti hingað til, en árgangarnir frá 2005 og 2006 eru einnig metnir stórir. Árgangurinn frá 2007 er talinn vera nálægt meðaltali. Ekki liggja enn fyrir nægjanlegar upplýsingar þannig að hægt sé að meta stærð árganganna frá 2008 og 2009. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 2,8 milljón tonn árið 2012 ef afli verður samkvæmt aflareglu.
Samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum, er aflamark fyrir árið 2011 592-646 þúsund tonn. Til samanburðar var aflamark fyrir árið 2010 527-572 þúsund tonn og áætlaður heildarafli er um 930 þús. tonn. Þar af er afli Íslendinga áætlaður um 130 þús. tonn.
Ekki hefur náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu aflamarks, segir á vef Hafró.