Fiskiskipið Hákon EA 148 tók niðri um nónbil í gær á sundunum inn af Stykkishólmi, en skipið var þá nýlega komið til síldveiða á Breiðafirði. Fram kemur á vef Skessuhorns, að gat kom á skipið á einum stað og einnig er skrúfa þess eitthvað löskuð.
Skesshorn segir, að skipið hafi komið á síldarmiðin í Breiðafirði í gærmorgun og var búið að kasta einu sinni þegar óhappið varð. Enginn afli var þó kominn um borð. Skipinu var siglt til hafnar í Grundarfirði þar sem kafarar eru nú að meta skemmdir og gera bráðabirgðaviðgerð á því þannig að sigling í slipp verði örugg.
Hákon EA er 76,2 metra langt og 14,4 m breitt uppsjávarveiðiskip. Afkastageta þess í frystingu er um 120 tonn á sólarhring.