Starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða stefnir að því að ljúka störfum á fimmtudag og mun leggja til að fiskveiðiheimildir verði innkallaðar á 20 árum.
Starfshópurinn var skipaður í júlí í fyrra á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Þar er kveðið á um svo kallaða fyrningarleið varðandi veiðiheimildir. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar stefnir starfshópurinn að því að ljúka störfum á fimmtudag og skila sjávarútvegsráðherra skýrslu þann dag eða á föstudag.
Áhersla lögð á tvær leiðir
Lagt verður til að veiðiheimildir verði innnkallaðar á 20 árum eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nefndin mun reifa nokkrar leiðir til endurúthlutunar veiðiheimildanna, en aðaláhersla mun vera lögð á tvær leiðir. Annars vegar svo kallaða tilboðsleið sem Jón Steinsson hagfræðingur útfærði fyrir nefndina, en þar er gert ráð fyrir að 8 prósent veiðiheimilda verði innkallaðar árlega og þeim endurúthlutað á tilboðsmarkaði. Hins vegar er svo kölluð samningaleið þar sem samið yrði um nýtingarrétt auðlindarinnar við einstakar útgerðir. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar munu tillögur nefndarinnar byggja á fjórum megin markmiðum.
Að fiskistofnanrir séu eign þjóðarinnar og þeim sé ráðstafað af ríkinu. Ráðstöfunin gildi í tiltekin tíma og veiðiheimildunum deilt út eftir tilteknum reglum. Í þriðja lagi að gjald verði tekið fyrir nýtingarréttinn og að það gjald verði mun hærra en núverandi auðlindagjald. Og í fjórða lagi að nýtt kerfi tryggi jafna aðkomu allra að veiðiheimildunum og þar með verði opnað á aðkomu nýrra aðila að greininni.
Skýrslan mikil að vöxtum
Skýrsla starfshópsins er mikil að vöxtum eða um 300 blaðsíður. Það er síðan sjávarútvegsráðherra að ákveða um framhaldið, m.a. með skipan nefndar til að semja frumvarp um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi.
Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í vor, að ætla má að aðeins um 70 einstaklingar ráði yfir 70 prósentum af heildarkvótanum á Íslandsmiðum.
Heimir Már Pétursson