Makrílveiðarnar voru skemmtileg tilbreyting

  • by fg
  • 14 Years ago
  • 0

,,Veiðarnar gengu mjög vel. Það var makríll mjög víða en við tókum okkar afla í Jökuldjúpinu. Við vorum með sérútbúið troll frá Hampiðjunni og það virkaði mjög vel,“ segir Ægir Franzson, skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, í frétt á heimasíðu HB Granda . Ægir var með skipið á makrílveiðum nú í júlímánuði.

Samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra fengu frystitogararnir heimild til að veiða 230 tonn af makríl hver á þessu ári og af skipum HB Granda fóru Þerney og Venus HF fyrst til veiðanna. Ægir segir makrílveiðarnar hafa verið skemmtilega tilbreytingu enda séu þær um margt ólíkar þeim bolfiskveiðum sem skipverjar séu vanir.

,,Það þarf að draga flottrollið alveg í yfirborðinu. Það eru notaðir léttir toghlerar og svo notuðum við tóg í staðinn fyrir togvíra. Allt virkaði þetta vel frá fyrsta holi. Þar sem að makríllinn er mjög feitur þurftum við að frysta hann lengur en við erum vanir og því má segja að frystigetan, sem var um 25 tonn að jafnaði á sólarhring, hafi stjórnað veiðunum.“

Er rætt var við Ægi var hann með skipið norður í Reykjafjarðarál á bolfiskveiðum. Hann segir að vart hafi orðið við makríl mjög víða að undanförnu og m.a. hafi töluvert verið af makríl á ferðinni grunnt út af Vestfjörðum.

,,Það er vonandi að framhald verði á makrílveiðunum á komandi árum og að hægt verði að gera sem allra mest verðmæti úr aflanum,“ segir Ægir Franzson

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *