Það er margt sem menn gera sér til dundurs hér um borð þegar lítið er um að vera og brælur, og ekki er hægt að vera á veiðum….Maggi Snorra, sá öðlingsdrengur fékk þá hugmynd að ná sér í gæludýr og var ekki lengi að grípa múkkaræfil sem villst hafði inná dekkið í rokinu undanfarið. Maggi varð voða glaður að hafa klófest máfinn en blm grunar að máfurinn hafi ekki verið jafn kátur.
Magnús var með miklar hugmyndir um hvað hann ætlaðist til með máfinn. Ætlaði hann sér að þjálfa hann upp, gera hann að einskonar skipsmáfi og æfa hann í að koma í lestina með sér og jafnvel að aðstoða hann á vigtinni þegar mikið væri að gera. Einnig gældi hann við þá hugmynd að múkkaræfillinn myndi fljótlega læra það að færa honum kaffitár….
En fljótlega bráði nú af Magga og allar hugmyndir um máf sem gæludýr hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar múkkaræfillinn lét öllum illum látum í höndunum á Magga og endaði á því að gera þarfir sínar á fínu lambhúshettuna sem sést á myndinni.
Þá fékk múkkinn að fara óáreittur og með hastarlegri hjálp frá bjargvætti sínum. Allar tilraunir í þessa átt hafa verið lagðar á hilluna og liggur Maggi nú undir feldi og íhugar að gerast statisti fyrir hinn fræga leikara Robin Williams en eins og myndin sýnir eru þeir ekki ólíkir….