Skv. haustralli Hafrannsóknarstofnun hækkaði heildarvísitala þorsks um rúm 20% frá árinu 2009. Er vísitalan sú hæsta frá 1996 er farið var í fyrstu stofnmælinguna. Hækkun vísitölunnar í fjölda er í góðu samræmi við áætlanir frá því í vor, en þyngdaraukning er aðeins meiri en áætlað hafði verið.
Fram kemur í tilkynningu frá Hafró að lengdardreifing þorsks í ár samanborið við meðaltal áranna 1996-2009 sýni að meira sé af þorski stærri en 80 cm og sé það í samræmi við stofnmælinguna árið 2009.
Vísitala ársgamals þorsks, þ.e. árgangsins frá 2009 mældist sú hæsta frá því að stofnmælingar að hausti hófust árið 1996. Vísitala tveggja ára þorsks, árgangsins frá 2008, mældist einnig sú hæsta sem sést hefur hjá tveggja ára þorski frá því að mælingarnar hófust. Benda niðurstöðurnar til að báðir þessir árgangar gætu verið yfir langtímameðatali, en árgangar 2001-2007 voru allir vel undir meðallagi. Fyrstu vísbendingar um 2010 árganginn gefa til kynna að hann sé undir meðalstærð.
Heildarvísitala ýsu lækkar um 25%
Þá segir í tilkynningu frá Hafró að heildarvísitala ýsu hafi lækkað um 25% frá árinu 2009 og sé nú um 45% af því sem hún hafi verið árið 2004 þegar hún hafi verið hæst. Vísitalan sé svipuð og árin 1996-2001.
Vægi árgangsins frá 2003 fari minnkandi og sé nú um 22% af heildarvísitölunni, en hafi verið á árunum 2006-2008 30-50% hennar.
Þessi lækkun á vísitölu er í samræmi við það sem sést hefur í stofnmælingum að vori.
Lengdardreifingar sýna að mest fékkst af ýsu á bilinu 35-45 cm. Borið saman við árin 2008 og 2009 fékkst nú minna af 55cm og minni ýsu en svipað af stærri en 55cm.
Stofnmæling botnfiska að haustlagi (haustrall) fór fram í 15. sinn dagana 24. september – 11. nóvember s.l. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 m dýpi og náði einnig til grænlenskrar lögsögu