Um borð í Júllanum hafa kleinurnar frá Raggagarði í Súðavík verið ómissandi undanfarin ár. Júllinn setti sig í samband við Vilborgu Arnarsdóttir forsvarsmanns Raggagarðs og spurðist fyrir um tilurð þess að hún bakar kleinur fyrir strákana á Júllanum
Júlíus Geirmundsson ÍS byrjaði að kaupa kleinur af Raggagarði árið 2004 og hefur því keypt kleinur í 9 ár. Samkvæmt mínu bókhaldi sem dæmi þá keypti Júllin 97 kg af kleinum árið 2010 og árið 2011 alls 116 kg. Ef meðaltal af þessu er 96 kg á ári hafa strákarnir torgað tæpu tonni af kleinum eða 864 kg á 9 árum. Styrkurinn frá Júlla strákunum er því að meðaltali 115,200 kr á ári og það munar um minna. Afraksturinn af kleinusölunni er ætlaður til að greiða fastan kostnað í garðinum sem er rafmagn, tryggingar og heimasíða. Afgangurinn fer svo í framkvæmdastjóðinn. Þar sem framkvæmdastjóri garðsins er í fullri vinnu ásamt því að sinna málefnum Raggagarðs og fleira í sínum frítíma þá hefur dregið verulega úr bakstri síðustu 2 ár. Einnig hefur hækkun á rafmagni leitt til þess að dregið hefur úr bakstri, en heimili kleinukonunar hefur styrkt garðinn um það öll árin.
Í dag er nánast bakað eingöngu kleinur fyrir Júlla strákana og fyrir vinnudagana á sumrin í Raggagarði. Það yljar konuhjartað að vera elskuð af heilli áhöfn, þó það sé aðeins um matarást að ræða. Slíku er ekki hægt að hafna. Þess vegna er alls ekki verið að auglýsa kleinurnar.
Hugsjónin varðandi garðinn og nafn hans.
Nafnið á garðinum er tilkomið vegna þess að Bogga, frumkvöðull félagsins fór af stað með þetta verkefni og vinnuframlag sitt til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall, árið 2001.
Garðurinn er vettvangur fyrir ánægjulegar samverustundir með börnum okkar og barnabörnum, þar sem öll fjölskyldan getur glaðst saman. Gleðilegur vettvangur til að hugleiða út á hvað lífið gengur eða hvað sé okkur dýrmætast í lífinu hjá hverjum þeim sem heimsækir garðinn
Raggagarður var opnaður 6. ágúst 2005
Frumkvöðull að þessum garði er formaður og framkvæmdastjóri áhugamannafélagsins um garðinn, Vilborg Arnarsdóttir ( Bogga í Súðavík )
Hún hafði lengi gengið með þá hugmynd að reisa sumarleiksvæði sem ætlað væri til að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur á norðanverðum Vestfjörðum.
Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum og efla útiveru og hreyfingu og um leið stuðla að ánægjulegri samveruforeldra og barna. Að halda áfram uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á Vestfjörðum.
Súðavíkurhreppur lagði til lóðina. Heimamenn, sumarbúar, gestir og fjöldi velunnara garðsins á öllum aldri ásamt styrktaraðilum hafa látið þennan draum rætast. Fleiri hundruð klukkustundir hafa verið unnar í sjálfboðavinnu af velunnurum. Allir hafa unnið af alúð og umhyggju við verkið frá upphafi með ýmsu móti
.Framkvæmdir á næstunni
Næstkomandi sumar 2013 á að gera stór átak í framkvæmdum í garðinum og verður hafist handa við að móta og búa til útivistarsvæðið innan til við leiksvæðið. Þar á að vera ma. útisvið og áhorfendasvæði, rekaviðarskógur, tjörn, listaverkalundur, sjávarsorfið grjót úr djúpinu, dvergasteinar, hvalbein og margt annað til að skoða og njóta. Til stendur að gera stór átak næsta sumar og opna þetta svæði á 10 ára afmæli Raggagarðs 2015. Nýlega var félagið að senda bréf til fyrirtækja á öllum Vestfjörðum og óska eftir hjálparhönd svo þetta takist, en auðvitað er heilmikill kostnaður við vélavinnu og efniskostnað. Raggagarður er garður Vestfirðinga og allra þeirra sem hafa lagt honum lið. Vestfirðingar hafa sýnt og sannað að enn er kraftur í Vestfirðingum og láta hvorki kreppu né annað stoppa sig eða draga úr sér þróttinn.
Vefsíða sem inniheldur allar upplýsingar um Raggagarð; raggagardur.is