Togarinn Júlíus Geirmundsson ÍS er á heimleið frá miðunum úti fyrir austurlandi, en þar hefur hann verið á makrílveiðum undanfarnar vikur. Makrílveiðum er lokið að sinni og nú munu hefðbundnar bolfiskveiðar taka við.
Júllinn setti sig í samband við Sverri Pétursson útgerðarstjóra HG sem gerir út Júlíus og innti hann eftir því hvernig makrilveiðar hefðu gengið.
“Makrílveiðar gengu vel þegar haft er í huga að við höfum aldrei staðið í þessu áður. Við höfum orðið okkur úti um dýrmæta reynslu bæði hvað varðar veiðar, vinnslu og markaðssetningu”
Við töldum okkur þurfa 2 ár til að ná sömu gæðum og Norðmenn, en ég held að við séum nú þegar komnir með betri vöru en þeir. Sérstaklega vil ég þakka áhöfn Júlíusar fyrir frábær gæði þess makríls sem við höfum landað. ”
En hvernig er afkoman af þessum veiðum?
“Afkoman af veiðunum var viðunandi, að vísu var fjárfesting í veiðarfærum mjög mikil. Ef ekki hefði komið til makrílveiða Júlíusar hefði hann verið bundinn við bryggju allan júlí mánuð í sumar, en það hefði verið í fyrsta skiptið sem það hefði komið fyrir þetta skip. ”
Framtíðin?
“Við erum bjartsýnir á framtíð makrílveiða og vonum að við getum gert betur í verðmætasköpun á næstu vertíð.
Við sjáum ekki annað en að þessar veiðar séu komnar til að vera. ”
Áætlað er að Júlíus verði í landi á Ísafirði um kl 18.00 í kvöld, miðvikudag