Júlíus Geirmundsson ÍS, flaggskip vestfirska flotans, er þriðji kvótahæsti togari landsmanna. Júlíus er frystitogari í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í Hnífsdal og heimahöfn þess er Ísafjörður. Á fiskveiðiárinu sem hófst í þessum mánuði var útgerð Júlíusar Geirmundssonar ÍS úthlutað 5.265 þorskígildistonna aflamarki á Íslandsmiðum.
Kvótahæsti togari landsins er Guðmundur í Nesi RE sem er í eigu útgerðarfyrirtækisins Brims hf. Hann á rétt á að veiða 6.393 tonn á þessu fiskveiðiári. Annar í röðinni er Brimnes RE með 5.596 þorskígildistonn. Brimnes er einnig í eigu Brims hf. Aðaleigandi þess fyrirtækis er Guðmundur Kristjánsson frá Rifi.
Aflamark Júlíusar Geirmundssonar ÍS er mest í þorski, 1.990 tonn, ýsa 508 tonn og grálúða 1022 tonn. Aflamark annarra togara í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. á fiskveiðiárinu 2010/2011 er þannig háttað: Páll Pálsson ÍS er með 3.835 tonna aflamark, þar af eru 2.091 tonn í þorski og 624 í ýsu. Stefnir ÍS er hinsvegar aðeins með 375 tonna kvóta skráðan í upphafi fiskveiðiársins. Skuttogarinn Gunnbjörn ÍS, í eigu Birnis ehf., fær ekki úthlutað nema 10 þorskígildistonnum. Ekki eru nema þessir fjórir togarar skráðir á Vestfjörðum. Valbjörn ÍS í eigu Birnis ehf. er talinn með skipum og kvóti hans er 586 þorskígildistonn, þar af eru 250 tonn í þorski.