Kjarasamningar sjómanna eru lausir 1 jan nk. Júllinn leitaði álits Sjómannasambands Íslands, og Verkalýðsfélags Vestfjarða um komandi kjarasamninga og hvort undirbúningur væri hafinn og hvaða kröfur væru einna helst uppi.
Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri SSÍ sagði að Sjómannasambandið byggi ekki til kröfurnar, heldur eigi þær að koma frá grasrótinni, þ.e. sjómönnunum sjálfum. Samkvæmt lögum er hvert stéttarfélag lögformlegur samningsaðili. Hjá sjómönnum hefur það verið þannig að flest aðildarfélög Sjómannasambandsins hafa gefið því umboð til að fara með samningagerðina fyrir sína hönd. Sjómannasamband Íslands hefur því undanfarna áratugi farið með samningsumboðið fyrir öll aðildarfélög sín að undanskildu Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, en Alþýðusamband Vestfjarða fer með samninga fyrir sjómenn á Vestfjörðum. Góð samvinna hefur verið milli Alþýðusambands Vestfjarða og Sjómannasambands Íslands í samningaviðræðunum undanfarin ár og kröfur hafa verið áþekkar. Undirbúningur að kröfugerðinni er rétt að hefjast en ferillinn er þannig að Sjómannasamband Íslands kallar eftir kröfum og umboði frá aðildarfélögum sínum. Aðildarfélögin funda með sjómönnum og fá fram hvað sjómennirnir sjálfir leggja áherslu á að rætt verði við samningaborðið. Ég reikna með að eins og í undanförnum samningum gefi flest aðildarfélög sambandsins Sjómannasambandinu umboð til að fara með samningana fyrir hönd félagsins. Eftir að aðildarfélögin hafa sennt inn kröfur sínar fer í gang vinna við að samræma kröfugerðina og sjá hvar áherslurnar liggja.
Samkvæmt lögum ber samningsaðilum að gera viðræðuáætlun sín í milli 10 vikum áður en samningar renna út. Samkvæmt því á viðræðuáætlunin að liggja fyrir í síðasta lagi þann 22. október næstkomandi. Í viðræðuáætlun kemur meðal annars fram hvernig menn sjá fyrir sér framvindu kjaraviðræðnanna, hvenær kröfur verða lagðar fram og hvenær má vísa málinu til ríkissáttasemjara ef ekki hefur orðið árangur af viðræðunum. Kröfulistinn er ekki birtur opinberlega fyrr en eftir að gagnaðila hafa verið kynntar kröfurnar sbr. viðræðuáætlun.
Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða sagði að varðandi kjarasamninga þá eru engar formlegar viðræður hafnar.
Heildarsamtök atvinnulífsins hafa viðrað hugmynd um langtímasamning, nánast algjöran kyrrstöðusamning, sem verkalýðshreyfingin hefur ekki viljað ræða.
Undirbúningur fyrir alla kjarasamninga er að hefjast en þeir eru nánast allir lausir frá og með 30.nóv. nk. Þetta eiga eftir að vera erfiðar samningaviðræður, þrátt fyrir að sjávarútvegfyrirtæki ættu að hafa borð fyrir báru þegar kemur að þessum málum.
Fyrir síðustu samninga okkar við útvegsmenn voru haldnir nokkrir fundir með sjómönnum til að fá fram hvaða áherslur væru þar helstar. Niðurstaðan varð kröfugerð sem við fórum með inn í viðræðurnar. Okkar stóra mál í undanförnum
samningum hefur verið að verja Vestfjarðarsamninginn, en helsta kröfumál útgerðarinnar er að einn kjarasamningur gildi fyrir alla sjómenn. Við náðum öllum hækkunum í síðustu samningum hlutfallslega ofan á okkar samning sem var mjög mikils virði.
Varðandi framhaldið þá er nauðsynlegt að fá að heyra hverjar áherslur sjómanna eru, við verðum að vita hver hugur baklandsins er. Okkar markmið er að verja Vestfjarðarsamninginn áfram og við það þurfum við stuðning sjómanna og hugmyndir.
Júllinn innti þá eftir því hvort ekki væru uppi hugmyndir um að tryggja sjómönnum rétt til síma og netsambands allstaðar og sögðu báðir aðilar að það hefði verið uppi á borðum í síðustu samningum og yrðu örugglega í þeim næstu.
Finnbogi sagði að þetta með fjarskiptin/netið hefði verið rætt í síðustu kjaraviðræðum við útvegsmenn, en ekki náðist nein lending þar. Útvegsmenn báru fyrir sig óheyrilegum kostnaði við að koma upp öðrum búnaði. Við blésum reyndar á það og bentum á að margar útgerðir væru að koma sér upp búnaði þannig að sjómenn gætu verið í netsambandi út á sjó. Það er rétt að leggja áherslu á þetta atriði sérstaklega þar sem verið er að hvetja sjómenn til að stunda nám með vinnu.