Ríkisstjórnin samþykkti tillögur Ögmundar Jónassonar, dómsmálaráðherra, á fundi sínum á föstudagsmorgun, um að leigð verði þriðja þyrlan til björgunarstarfa fyrir Landhelgisgæsluna. Þetta þýðir að þá yrðu ávallt tvær áhafnir til taks.
Áætlað er að sértekjur Landhelgisgæslunnar dugi fyrir leigu þriðju þyrlunnar þannig ekki þurfi að fjármagna leiguna með fjárframlögum úr ríkissjóði.
Landhelgisgæslan hefur að undanförnu leigt flugvél sína til ýmissa verkefna í útlöndum og jafnvel hefur verið rætt um að nýtt varðskip, sem er í smíði í Chile, verði leigt tímabundið þegar það er tilbúið.