18. November 2010

Loðnukvóti verði 200 þúsund tonn – mbl.is

  • by fg
  • 14 Years ago
  • 0

ljósmynd: mbl.is/Árni Sæberg

Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2010/2011 verði samtals 200 þúsund tonn.  Jafnframt leggur stofnunin til að ekki verði gerðar breytingar á núgildandi reglum um takmörkun á notkun flotvörpu við veiðarnar. Þetta er lagt til á grundvelli niðurstöðu haustmælinga á loðnu.

Haustmælingar á loðnu fóru fram á tímabilinu 24. september til 8. nóvember 2010. Að þessu sinni voru mælingarnar gerðar á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni samhliða stofnmælingum með botnvörpu að hausti og sjórannsóknum, samkvæmt frétt á vef Hafró.

Marktækari mælingar en áður

Loðnumælingarnar fóru því fram fyrr og náðu yfir lengri tíma en á undanförnum árum þegar þær voru gerðar á tímabilinu frá því um miðjan nóvember og fram í desember. Þetta leiddi aftur á móti til þess að unnt var að fara miklu víðar en undanfarin ár þar sem enginn lagnaðarís var til trafala líkt og oft hefur verið í nóvember og desember. Því telur Hafrannsóknastofnunin að mælingar á stærð stofnsins nú séu að líkum marktækari en mælingar undanfarinna ára.

Loðna fannst mjög víða, bæði ungloðna (eins árs) og fullorðin loðna (tveggja og þriggja ára) sem mun hrygna í mars 2011. Svæðið sem eins árs loðnan fannst á var einkum í Grænlandssundi og við Grænland, þ.e. vestan 30°V og sunnan 67°N. Annars staðar var hún blönduð eldri loðnu, einkum á kafla norður af Kögri og með austur grænlenska landgrunnskantinum að 68°N. Norðan 68°N með kantinum norður fyrir Scoresbysund var að mestu um eldri loðnu að ræða.

Meira af ungloðnu en áður hefur mælst

Um 100 milljarðar mældist af eins árs loðnu og er það meiri fjöldi en mælst hefur frá því um aldamót, en mjög lítið hefur fundist af eins árs loðnu á undanförnum árum. Ástand hennar var mjög gott bæði meðallengd og meðalþyngd voru yfir meðallagi.

Sýni sem tekin voru í leiðangrinum benda til þess að tæp 10% eins árs gömlu loðnunnar muni hrygna næsta vor. Það er hærra hlutfall en sést hefur í fyrri mælingum sem gerðar hafa verið á þessum árstíma.

Alls mældust um 36 milljarðar af loðnu sem gert er ráð fyrir að hrygni á komandi vertíð. Þar af var fjöldi tveggja ára loðnu um 26 milljarðar, sem samsvarar um 490 þúsund tonnum.

Einungis mældust tæp 20 þúsund tonn af þriggja ára og eldri loðnu. Samkvæmt mælingunum er því stærð hrygningarstofnsins rúm 630 þúsund tonn. Þar af er ársgamla loðnan 120 þúsund tonn og tveggja ára og eldri loðna um 510 þúsund tonn.

Önnur mæling í janúar/febrúar

Miðað við framangreindar mælingar, að teknu tilliti til náttúrlegra affalla, þyngdaraukningar fram að hrygningu og að skilin verði eftir 400 þús. tonn til hrygningar, reiknast veiðistofn loðnu 198 þúsund tonn.

Hafrannsóknastofnunin leggur því til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2010/2011 verði samtals 200 þúsund tonn. Jafnframt leggur stofnunin til að ekki verði gerðar breytingar á núgildandi reglum um takmörkun á notkun flotvörpu við veiðarnar. Hafrannsóknastofnunin mun að nýju mæla stærð loðnustofnsins í janúar/febrúar 2011 og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess, segir í frétt á vef Hafró

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *