Jógvan Jespersen, stjórnandi færeysku úthafsveiðisamtakanna (FPO), segir að til að lausn fáist í makríldeilunni þurfi allir málsaðilar að sýna vilja til að þoka málinu áfram. Vikið verður að deilunni á ráðstefnu um úthafsveiði í Færeyjum á morgun en næstu samningalotur fara fram í London í október.
Morgunblaðið ræddi við Jespersen símleiðis í kvöld en hann segir aðspurður að Evrópusambandið og Noregur hafi sýnt fulltrúa Færeyja í samningaviðræðunum lítinn vilja til eftirgjafar er viðræður fóru fram í Brussel og Ósló í júni og júlí í sumar.
Því hafi Færeyingar ekki átt annarra kosta völ en að ákveða makrílkvóta sinn, líkt og Norðmenn, Rússar, ESB og Ísland hafi áður gert.
En Færeyingar hafa krafist þess að makrílkvóti þeirra verði aukinn úr 35.000 tonnum í 85.000 tonn eða úr um 5% í 15% af heildar makrílkvótanum, sem er alls 570.000 tonn.
Mótmæla löndunarbanni
Færeyingar hafa jafnframt mótmælt löndunarbanni Norðmanna og Evrópusambandsins á makríl sem veiddur er af færeyskum skipum. Jespersen harmar bannið og segir að að með því ljúki áratuga langri samvinnu ríkjanna á þessu sviði.
„Makríldeilan hlýst af því að fjórir aðilar [Ísland, Færeyjar, Rússland, Noregur og ESB] geta ekki komið sér saman um kvótann sem Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til. Noregur og ESB hafa veitt meira en 100% af leyfilegum heildar makrílkvóta sínum.
Við lítum svo á að Norðmenn og Evrópusambandið geti ekki ásakað aðra um óábyrgar veiðar á meðan staðið er svona að veiðunum. Norðmenn hafa veitt 59.000 tonn aukalega á árinu 2010 vegna kvóta sem þeim tókst ekki að veiða árið 2009,“ segir Jespersen og bætir því að Norðmenn hafi ekki haft lagalega heimild til að auka veiðarnar sem þessu nemur.
Þá hafi Norðmenn ekki ráðfært sig við Færeyinga vegna veiðanna.
Jespersen tekur svo fram að hafið umhverfis Færeyjar sé sneisafullt af makríl sem skipi orðið mikilvægan sess í hagkerfi landsins.
Baldur Arnarson baldura@mbl.is