Þrátt fyrir rólega byrjun er útlit fyrir gott ferðasumar á Vestfjörðum. Margir ferðamenn hafa lagt leið sína þangað í júlí og ágúst. Útlit er fyrir að sumarið í heild slagi upp í síðasta ár þegar mikil aukning varð.
„Sumarið er prýðilegt eftir frekar rólega byrjun,“ segir Heimir Hansson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Ísafirði. Hann segist ekki vita hvað valdi samdrætti í maí og júní en nefnir að margir kenni úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu um.
Elías Oddsson, framkvæmdastjóri Vesturferða, segir að mikið hafi hægt á bókunum í vor og tengir það helst við áhrif öskunnar úr Eyjafjallajökli en tekur fram að þeir hópar sem átt hafi bókað hafi skilað sér vel.
Stöðug aukning er í gönguferðir um Hornstrandafriðland og ferðir á Hesteyri og í Vigur, að sögn Elíasar. Þá hefur mikið verið að gera við þjónustu ferðafólks skemmtiferðaskipanna, að því er fram kemur í umfjöllun um ferðamál á Vestfjörðum í Morgunblaðinu í dag.