Fulltrúar Ísafjarðarbæjar óskuðu eftir því við sjávarútvegsráðherra í gær að ráðuneytið kæmi að lausn atvinnuvandans á Flateyri. Þeir eru með hugmyndir um að auka byggðakvótann og ráðstafa honum til fiskvinnslu á staðnum.
„Við teljum mikilvægt að bæta við byggðakvótann til að búa til gulrót til að hægt sé að taka upp samstarf um að auka möguleika fiskvinnslunnar til hráefnisöflunar,“ segir Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.
Eiríkur Finnur telur mögulegt að auka vinnsluna með samstarfi og nefnir að það hafi tekist á Þingeyri með samvinnu við Vísi í Grindavík.