18. December 2010

Pressan.is | Sexý sjómenn

  • by fg
  • 14 Years ago
  • 0

Sveinn stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270

Tekið af Pressan.is, pistill eftir Sigrúnu Einars:

Með fullri virðingu fyrir öðrum starfstéttum þá hefur sjómennska ávallt verið táknmynd karlmennskunnar í mínum augum. Hvergi á byggðu bóli er að finna meiri karlmenni en á íslenskum fiskiskipum og mér er sama hvernig sjómennirnir okkar líta út eða hversu gamlir þeir eru, það er nákvæmlega EKKERT meira sexý en sjómenn.

Menn sem geta staðið úti á dekki, og UNNIÐ klukkutímunum saman, í svo miklum öldugangi að þeir standa nánast láréttir og fá yfir sig endalausar gusur af fleiri hundruðum lítra af ísköldum sjó á nokkura mínútna fresti og það jafnvel í kolniðamyrkri, úrkomu og hávaða roki eru engir aumingjar. Nei, bíddu. Það er bara hlægilegt að nefna orðið sjómaður og aumingi í sömu setningunni svo ég tek þetta aftur. Svona menn eru KARLMENNI.  

Sigrún Einars pistlahöfundur

Og þó að þetta líkamlega álag, sem þeir gangast daglega undir sjálfviljugir sé ekki nóg þá fá þeir sjaldan meira en 4-5 tíma samfelldan svefn og neyðast til að þola nána sambúð með tugum annara karlmanna vikum, og jafnvel mánuðum, saman. Öll vandamál sem upp kunna að koma eru leyst á staðnum, þeim er ekki frestað og það er ekki gengið í burtu frá þeim. Þeir aðlagast þessu umhverfi sem þeir búa í og gera það svo vel að þeir allra hörðustu eyða ævi sinni á sjó. Og hvað þá með andlega álagið sem fylgir því að vita aldrei hvað þú ert að fara útí, möguleikann á því að koma ekki heim aftur? Í hvert sinn sem sjómaður kveður fjölskyldu sína til að fara í vinnuna gæti það verið í síðasta sinn.

Þetta eru menn sem fórna lífi sínu til að brauðfæða fjölskyldur sínar, þeir missa af uppvexti barna sinna, taka sjaldnast þátt í viðburðum innan fjölskyldunnar, verða af almennu félagslífi með vinum og vandamönnum og eiga ekkert sem heitir eðlilegt líf utan vinnutíma. Þeir eru ALLTAF í vinnunni, nema akkúrat þegar þeir fá frí, sem nota bene er 1 dagur fyrir hverja viku á sjó og athugið að vinnuvika sjómannsins eru heilir 7 dagar. Önnur frí þurfa þeir að taka launalaust.  Jújú, laun sjómanna geta verið helvíti góð, enda leggja heilvita menn ekki líf sitt í hættu dag eftir dag nema fá almennilega borgað fyrir.  En launin eru árangurstengd, ef ekkert fiskast fá þeir ekki mikið meira í mánaðarlaun en sem nemur upphæð atvinnuleysisbóta og það er ekkert alltaf fullt fiski í sjónum! Látið mig þekkja það, verandi ennþá einhleyp… 

En nei, sjómennskan er sko ekkert grín, hvorki fyrir sjómennina sjálfa né konur þeirra sem er reyndar efni í annan pistil svo ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Sjómannskonur, þið eigið alla mína virðingu einnig fyrir ykkar styrk og fórnir. En aftur að sjómönnum, þessum hetjum hafsins sem virðast geta höndlað hvaða aðstæður sem er en eru oftar en ekki umhyggjusamir og tilfinningaríkir menn inn við beinið sem vilja allt fyrir sína nánustu gera. Og þá kem ég að því sem fullkomnar þessa karlmennsku sem ég er að tala um og margir menn vilja flokka undir aumingjaskap (margur heldur mig sig). Mín skilgreining á karlmennskunni nær nefninlega ekki aðeins yfir það sem allir sjá, þessa hörku og styrkinn til að takast á við krefjandi andlegar og líkamlegar aðstæður án þess að kveinka sér heldur einnig hitt, að geta sýnt tilfinningar, að geta grátið, að geta opnað hjarta sitt og umvafið einhvern ást og hlýju án þess að óttast það að verða berskjaldaður og varnarlaus. Þessa eiginleika hef ég oft séð hjá sjómönnum og ÞAÐ er virkilega töff og algjörlega ómótstæðilega sexý.

Mér finnst það einnig frekar sennilegt að menn, sem eru að eðlislagi afbrýðissamir, þoli sjómennsku illa, verandi burtu frá konum sínum vikum saman. Það er því örugglega ekki mikið af þannig týpum í þessari starfstétt sem gerir sjómenn enn fýsilegri kost í mínum augum. Þar að auki er líka alveg yndislegt að geta átt hveitibrauðsdaga með elskunni sinni í hverjum mánuði, eins og ein sjómannsfrú orðaði það svo skemmtilega, og gaman að upplifa spennuna sem byggist upp hægt og rólega frá því þú veist að hann er á leiðinni í land og spennufallið og hamingjuna þegar þú ert komin í fang hans aftur. Það er fátt sem toppar það.   

Sjómenn Íslands, ég elska ykkur ALLA, sendi koss á línuna og bið guð að blessa ykkur og fjölskyldur ykkar.

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *