Veitingastaðakeðjan Fish‘n‘Chicken og Hraðfrystihúsið Gunnvör hafa átt í farsælu í samstarfi síðustu tvo áratugi. „Þegar við byrjuðum að vinna með HG vorum við með fjóra veitingastaði en nú eru þeir orðnir 38 svo að það má með sanni segja að við höfum byggt fyrirtækið upp á gæðum vörunnar. Við seljum í kringum 35 þúsund fiskskammta á viku og viljum gefa viðskiptavininum það besta sem er í boði og það er fiskurinn frá HG,“ segir James Lipscombe framkvæmdastjóri Fish‘n‘Chicken en hann heimsótti fyrirtækið heim um helgina ásamt föður sínum Hugh Lipscombe, einum stofnanda og stjórnanda fyrirtækisins. „Við trúum staðfastlega á að gæði hráefnisins skipti mestu máli og að besta varan komi frá Íslandi. Fiskurinn sem við fáum frá HG er sá besti sem fæst á markaðinum í dag,“ segir Hugh.
Á tuttugu ára samstarfsferli hafa myndast sterk tengsl milli forsvarsmanna Fish‘n‘Chicken og HG-manna. „Okkar reynsla af því að vinna með Íslendingum er mjög góð. Þeir eru mjög fagmannlegir og heiðarlegir,“ segir James og Hugh tekur undir það. Bretarnir koma árlega til Íslands til að heimsækja fyrirtækið og segja þeir feðgar að allir hlakki til ferðanna enda séu þær engu líkar. „Við heilsum upp á áhöfnina á Júlíusi Geirmundssyni og heimsækjum fyrirtækið enda höfum við myndað góð vinatengsl við stjórnendur þess. Það eru myndir af veitingastöðum okkar um borð í skipinu og ég held að það auki tengslin, að mennirnir geti séð hvert fiskurinn sem þeir veiða fer. Og sömuleiðis erum við með myndir af áhafnarmeðlimum á veggjum veitingastaðanna svo að viðskiptavinurinn sjái hvaðan fiskurinn sem hann borðar kemur,“ segir James. „Okkur finnst við líka hafa tengsl við samfélagið í heild og erum til að mynda með merki Fish‘n‘Chicken við knattspyrnuvöllinn á Torfnesi,“ bætir Hugh við.
Forsvarsmenn Fish‘n‘Chicken hafa miklar áhyggjur af óvissu í íslenskum sjávarútvegi og fylgjast grannt með framvindu mála hvað varðar fiskveiðistjórnun í landinu. „Það skiptir fyrirtækið okkar miklu máli að þorsksvinnsla verði áfram í fararbroddi í íslenskri fiskvinnslu,“ segir Hugh og James bætir við. „Við höfum í hyggju að stækka fyrirtækið á næstu árum og því er mikilvægt að við getum haldið áfram okkar góða samstarfi við HG því að íslenski fiskurinn sem frystur er beint í frystitogurum er sá besti sem völ er á.“
Fyrirtækið býður ekki aðeins enskum viðskiptavinum sínum upp á íslenskan fisk heldur teygir það einnig anga sína til Frakklands, Sviss, Rússlands og Möltu. „Við stefnum á að opna fyrsta alþjóðlega staðinn í Sviss eftir tvo mánuði svo það eru spennandi tímar framundan hjá fyrirtækinu okkar,“ segir James.