Sjómenn> www.sjomenn.is

  • by fg
  • 14 Years ago
  • 0
 

  

mynd:fgigja

 

Af réttlæti nágranna í garð sjómanna
 

 

 

Nú um stundir hamast ríkisstjórnin við að svipta íslenska sjómenn sjómannaafslætti í nafni réttlætis. Fjármálaráðherra segir erfitt að rökstyðja sjómannaafslætt „gagnvart ýmsum hópum“ á sama tíma og elítan skammtar sér 24 milljarða í skattfrí hlunnindi; dagpeninga, bílastyrki, forstjórajeppa, húsaleigu, tölvur, síma, föt, tryggingar og fleira. Meðan sjómannaafsláttur lækkaði um 500 milljónir á fimmtán árum hækkuðu dagpeningar elítunnar um 75% – fór úr tveimur milljörðum í átta milljarða. Þar fara opinberir starfsmenn, þingmenn og ráðherrar fremstir í flokki.   

Sjómenn hafa notið sjómannaafsláttar síðan 1954. Þeir sækja sjóinn í mislyndum veðrum fjarri ástvinum. Þeir hafa skapað auðlegð þessarar þjóðar og afla dýrmæts gjaldeyris. Ríkisstjórnin ræðst á sjómenn og ber fyrir sig réttlæti – og hefur af þeim laun sem nema 510 þúsund krónum á mánuði.  

En hvernig ætli „réttlæti“ Steingríms J. Sigfússonar og félaga sé háttað í nágrannalöndum? Hver er hugur nágrannaþjóða til sjómanna? 

Sjómannaafsláttur í Noregi 3.2 milljónir

Staðreyndin er einföld. Á sama tíma og ráðist er að íslenskum sjómenn þá verðlauna nágrannaþjóðir sína sjómenn – og þeim mun meir sem þjóðir eiga undir sjómennsku. Í Noregi er sjómannaafsláttur 3.2 milljónir króna á ári. Í Færeyjum er sjómannaafsláttur 1.8 milljón krónur á ári. Í Danmörku er sjómannaafsláttur ein milljón á ári. Í Svíþjóð er sjómannaafsláttur 630 þúsund krónur á ári.

 

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að svipa sjómenn 360 þúsund króna sjómannaafslætti á ári þegar ástæða hefði verið til að hækka sjómannaafslátt til samræmis við nágrannalönd. Sjómannaafsláttur verður núll meðan sjálftökuliðið á Alþingi og ríkisstjórn skammtar sér 24 milljarða skattfrjálsa peninga. Allt í nafni réttlætis.

 

Mikil er skömm ríkisstjórnar Íslands.

 

Grein Sjómannafélags Íslands sem birt var í MBL 1. mars