Mörg hundruð manns sóttu sjötíu ára starfsafmæli Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. um helgina. Starfsfólki, viðskiptavinum og velunnurum félagsins var boðið til hófs í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á föstudag og opið hús var hjá HG í Hnífsdal á laugardag. „Það komu fleiri hundruð manns í afmælishófið í Edinborgarhúsinu og á milli 100-200 manns komu í heimsókn á laugardag“ segir Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri HG. „Þetta tókst mjög vel og við erum afar þakklát fyrir hvað það komu margir. Það kom í ljós að fólk er frekar meðvitað um hvað við erum að gera. En þótt það vissi megindrættina þá var það hissa á mörgu, ég held þó að margir hafi ekki áttað sig á umfangi starfseminnar. Svo fengum við mikið af góðum kveðjum og við þökkum kærlega fyrir þær,“ segir Einar Valur.
Tímamótin miðast við formlega stofnun Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal 19. janúar 1941. Félagið sameinaðist Frosta hf. í Súðavík sumarið 1997 og útgerðarfélaginu Gunnvöru hf. og Íshúsfélagi Ísfirðinga á Ísafirði sumarið 1999. Hið sameinaða félag var nefnt Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. (HG) og er öflugt fyrirtæki í útgerð, bolfiskvinnslu og þorskeldi.
Starfsmenn fyrirtækisins eru um 200 talsins árið um kring. Félagið veltir um 4 milljörðum króna og greiðir starfsmönnum sínum alls um 1,3 milljarða króna í laun á ári. HG gerir út frystiskipið Júlíus Geirmundsson ÍS-270 og ísfisktogararana Pál Pálsson ÍS-102 og Stefni ÍS-28. Afli skipanna hefur verið 11.000-12.000 tonn á ári. Fiskvinnsla er rekin í Hnífsdal og á Ísafirði. Aðallega er unnið úr þorski, ýsu og ufsa, alls um 5.000 tonnum hráefnis á ári.
HG er einnig umsvifamikið í þorskeldi í Álftafirði og í Seyðisfirði og rekur seiðaeldisstöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi í nafni Háafells ehf., sem HG á að mestu leyti. Þorskseiði eru alin á Nauteyri í fyrstu en síðan flutt til áframeldis í sjókvíum. Slátrað hefur verið allt að þúsund tonnum af eldisþorski á ári. Þriðji hver þorskur í landvinnslu HG 2009 var úr eldi og fimmti hver þorskur á árinu 2010. Starfsmenn í þorskeldi á vegum HG eru um 30 talsins og vonir standa til að eldið verði enn frekari vaxtarbroddur í starfsemi félagsins á komandi árum.
HG starfrækir niðursuðuverksmiðja Súðavík þar sem lifur úr bæði villtum fiski og eldisfiski er soðin niður. Þetta er eins konar hliðarbúgrein þorskeldisins og hefur aukist verulega að umfangi síðustu árin.
HG á um þriðjungshlut í Klofningi ehf. á Suðureyri, félagi sem er með alls fimm starfsstöðvar á Suðureyri, Ísafirði, Tálknafirði og Brjánslæk, og sérhæfir sig í nýtingu aukaafurða úr sjávarfangi (þurrkun og herslu á fiski og frystingu loðdýrafóðurs). Félagið veltir um einum milljarði króna á ári.
HG ríflega á ríflega þriðjungshlut í Icecod á Íslandi ehf., þróunar- og rannsóknafyrirtæki á sviði kynbóta í þorski og seiðaframleiðslu. HG er þar í samstarfi við HB-Granda, Stofnfisk og Hafrannsóknastofnun.
voru strákarnir á júllanum í afmælinu ég sá engann þar??.