Mótorbáturinn Háey frá Húsavík strandaði rétt fyrir klukkan eitt í dag við Hólshöfða skammt frá Raufarhöfn. Samkvæmt upplýsingum frá fréttaritara Morgunblaðsins eru fjórir í áhöfn skipsins en björgunarsveitir eru á leið á strandstað. Landhelgisgæslan er í viðbragðsstöðu og getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.
Ekkert amar að þeim sem eru um borð í bátnum og virðist báturinn vera lítið skemmdur. Eru góðar líkur á að honum verði náð á flot fljótlega.
Nýjustu fréttir….
Mótorbáturinn Háey frá Húsavík sem strandaði um eitt leytið í dag við Hólshöfða skammt frá Raufarhöfn er laus af strandstað. Samkvæmt upplýsingum frá fréttaritara Morgunblaðsins eru fjórir í áhöfn skipsins og amaði ekkert að þeim.
Björgunarsveitirnar Pólstjarnan frá Raufarhöfn og Hafliði frá Þórshöfn voru kallaðar út vegna strandsins. Einnig er björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gunnbjörg frá Raufarhöfn, á staðnum, með spotta og dælur.