Slysavarnaskóli sjómanna hlaut í dag Viðurkenningu LÍÚ 2010 fyrir mikilsvert framlag til öryggismála sjómanna í meira en 20 ár. Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskólans veitti viðurkenningarskjali móttöku úr hendi Adolfs Guðmundssonar, formanns LÍÚ, á aðalfundi samtakanna í dag en þau hafa af þessu tilefni ákveðið að færa skólanum framlag til kaupa á kennslubúnaði.
Slysavarnaskóli sjómanna var stofnaður af Slysavarnafélaginu árið 1985 í samstarfi við Landssamband slökkviliðsmanna og samtök sjómanna. Árið 1988 var gert samkomulag við samgönguráðuneytið um að Slysavarnafélagið starfrækti Slysavarnaskóla sjómanna og ári síðar samkomulag við menntamálaráðuneytið um öryggisfræðslu fyrir sjómannaskóla landsins. Frá stofnun skólans hafa yfir 32.000 nemendur tekið þátt í námskeiðum hans.
Slysvarnaskóli sjómanna varð árið 2005 fyrstur skóla á Íslandi að hljóta gæðavottun samkv. ISO 9001 staðli. Hann býður upp á öll skyldunámskeið í öryggismálum sem sjómenn þurfa að sækja og á síðustu fjórum árum hefur nemendafjöldinn verið um og yfir 2000 manns á ári og árlegur fjöldi námskeiða í kringum 140. Þá aðstoðar skólinn einnig skip, áhafnir og útgerðir við skipulagningu öryggismála og æfingar um borð í skipum. Árið 2009 hóf Slysavarnaskóli sjómanna samstarf við VÍS um átak í öryggismálum nokkurra útgerða sem m.a. felst í að aðstoða áhafnir við framkvæmd á áhættumati og atvikaskráningum um borð í skipum.