Sölubann á fiskafurðir frá ESB-umsóknarríkinu Íslandi er eitt af þeim úrræðum sem menn velta fyrir sér á vettvangi ESB, náist ekki samkomulag um makrílkvóta fyrir árið 2011, segir á vefsíðunni EUobserver 2. nóvember.
Í fréttinni segir, að íslensk stjórnvöld hafi föstudaginn 29. október hafnað tillögu sem Norðmenn kynntu með stuðningi ESB um að Íslendingar fengju á næsta ári heimild til að veiða 26.000 tonn af markíl í stað umsamins kvóta um 2.000. Í ár heimiluðu íslensk stjórnvöld hins vegar 130.000 tonna veiðar í íslenskri lögsögu.
Vitnað er í Tómas Heiðar Hauksson, þjóðréttarfræðing og formann íslensku viðræðunefndarinnar, sem telji tilboðið óraunhæft. Þá líti Íslendingar þannig á, að þeir einir eigi fiskistofna í lögsögu sinni.
EUobserver minnir á, að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hafi fyrir nokkrum vikum lýst „miklum áhyggjum“ yfir „einhliða“ og „undarlegum“ ákvörðunum Íslendinga og Færeyinga um veiðikvóta í lögsögu sinni. Færeysk stjórnvöld ákváðu 85.000 tonna kvóta fyrir sig.
Minnt er á, að Damanaki hafi sagt, að breyti íslensk og færeysk stjórnvöld ekki um stefnu kynnu skip þeirra að verða svipt aðgangi að ESB-miðum. „Beri tilboð okkar ekki árangur, get ég ekki ábyrgst að við munum halda áfram að skiptast á fiskveiðiheimildum við Íslendinga og Færeyinga á árinu 2011,“ sagði hún.
EUobserver ber fyrir sig ónafngreinda heimildarmenn sem gefi til kynna, að náist ekki niðurstaða í fjórhliða viðræðunum um makríl kunni Færeyingar og Íslendingar einnig að horfast í augu við sölubann á fiski innan Evrópusambandsins.
Næstu viðræðulota strandríkjanna fjögurra: ESB, Færeyja, Íslands og Noregs verður að nýju í London í annarri viku nóvember.