Undanfarið hafa ísfisktogarar Hraðfrystihússins Gunnvarar Páll Pálsson ÍS og Stefnir ÍS verið á makrílveiðum, og togað samtímis eitt troll, sem byggist á því að engir toghlerar eru notaðir, og hvort skip dregur sinn grandarann. Þegar trollið er tekið, sem er alltaf til skiptis, er leiðara skotið á milli skipanna og það skipið sem tekur trollið, dregur til sín grandarann og hífir síðan trollið uppá flottromlu.
Tvíburarnir Páll og Stefnir hófu þessar veiðar 10 ágúst, og lönduðu fyrsta farmi hjá HB Granda á Akranesi 14 ágúst samtals 215 tonnum, stærsta halið var um 45 tonn og eru skipin nú að klára það sem eftir er af þeirra kvóta. Hefur það gengið treglega, en vonast til að þessum veiðum ljúki fyrir helgi. Þess má geta að vinnsla í Hraðfrystihúsinu hefur verið stöðvuð vegna hráefnisskorts, en bæði Páll og Stefnir sjá Hraðfrystihúsinu fyrir hráefni, en eru föst í makrílveiðunum sem stendur.
Var ekki annað að heyra en að menn væru ánægðir með að hafa prófað þennan veiðiskap, en sennilega yrðu menn seint ríkir af þessu…Svo mörg voru þau orð!
Meðfylgjandi eru myndir teknar af skipverjum á Stefni ÍS 28
Af hverju er talað um tvíburana, annar smíðaður í Japan og hinn í Noregi. Þeir eru ekki líkir á neinn hátt.
Þetta eru ekki eins skip, það er satt, en ég kallaði þá þessu nafni þar sem þeir voru á svokölluðu tvíburatrolli…
ritstj.