Stjórn Útvegsmannafélags Reykjavíkur skorar á stjórnvöld að taka í útrétta sáttahönd þeirra sem starfa í íslenskum sjávarútvegi og hefja við þá raunverulegt samráð um vandaða vinnu við gerð nýs frumvarps til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þannig sé unnt að stuðla að aukinni sátt og afstýra um leið úr því tjóni sem breytingarnar myndu að óbreyttu hafa á efnahag þjóðarinnar, segir í alyktun stjórnar Útvegsmannafélags Reykjavíkur.
“Nýleg hagfræðiúttekt sérfræðingahóps, sem stjórnvöld kölluðu saman til að meta hagræn áhrif af fyrirhuguðum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, er áfellisdómur yfir hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar í málefnum sjávarútvegsins. Þá eru hugmyndir stjórnvalda beinlínis sagðar nýliðum fjandsamlegar í úttektinni, auk þess sem fyrirvarar eru settir við strandveiðar. Þær eru sagðar leiða til aukins sóknarkostnaðar, lakara hráefnis og jafnframt hvetja til brottkasts. Hundruð aðila um land allt hafa selt frá sér aflaheimildir. Með strandveiðum er þeim opnaður aðgangur að fiskimiðunum á ný á kostnað þeirra sem keyptu af þeim heimildirnar.
Í hagfræðiúttektinni er eindregið mælt gegn banni við framsali aflaheimilda og bann við veðsetningu sagt óráðlegt. Með hugmyndum um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða verður alræðisvald sjávarútvegsráðherra jafnframt eitt helsta einkenni sjávarútvegs á Íslandi. Stjórn Útvegsmannafélags Reykjavíkur skorar á stjórnvöld að hverfa þegar í stað frá framkomnum áformum um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.”