Eins og fram hefur komið hér á síðunni gerðist það að pallur sá er menn standa við hausara lenti í miklum hremmingum. Önnur undirstaðan undir pallinum var við það að gefa sig og ef ekki hefði verið fyrir snarræði Kristjáns vélstjóra, sem sauð undirstöðuna fasta aftur, hefði getað farið illa.
Rannsóknarblaðamenn Júllans hafa kafað djúpt ofan í þetta mál, yfirheyrt ákveðna aðila um að vera of þungir og þar fram eftir götunum. Hefur Júllinn lagt mikla vinnu í þetta sem á endanum borgaði sig, því einn skipverjinn brotnaði niður og játaði… Það var Baadermaðurinn á bátsmannsvaktinni sem játaði, en hann hélt að þetta hefði brotnað á sinni vakt, þegar Benni steig á pallinn á sama tíma og hann sjálfur stóð á honum.
Þykir mönnum þetta afar skrýtið, því þyngdin á þessum tveimur mönnum er ekki það mikil að eigin sögn að pallurinn hefði vel átt að þola þá báða….Annar þeirra segist vera rúm 100 kg en hinn rétt um 95…
En hvað sem þyngdinni líður þá telst stóra pallamálið upplýst. Þá er hægt að snúa sér að öðru…