„Við töluðum ekki við heilbrigðiseftirlitið en við töluðum við Ísafjarðarbæ áður en við hófum að losa rækjuskelina í Skutulsfirði og spurðum hvar við mættum losna við úrgang“, segir Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður rækjuvinnslunnar Kampa ehf. á Ísafirði. Íbúar í nágrenninu kvarta yfir óþef af rotnandi úrgangi í sjónum.
„Við fengum hins vegar ekkert svar, bara núll. Við vissum að allar aðrar rækjuverksmiðjur á landinu nema á Siglufirði losa úrganginn bara í sjóinn við verksmiðjurnar. Við vildum aftur á móti gera öllu betur og óskuðum eftir því að fá að setja þetta í sjóinn í Súgandafirði þar sem sjávarhreinsun er meiri. Við sáum síðan að Hnífsdalsbryggjan væri einna best en við vissum að við myndum aldrei fá neitt sérstakt leyfi hjá einum eða neinum til þess að losa þar. Í þetta sækir auðvitað fugl þegar verið er að sturta því. Við ákváðum að sturta þessu á kvöldin eftir vinnslu og vonuðumst til að út af Hnífsdalsbryggju væri nægilegur sjávarstraumur til að ekkert yrði úr þessu,” segir Jón við vef Bæjarins besta.
Haft var í dag eftir íbúa við Sundstræti, ekki langt frá rækjuvinnslu Kampa, að lyktin sé alveg óbærileg og hafi verið það undanfarið. „Ég meira að segja vaknaði við þessa fýlu eina nóttina. Ég hef verið að ræða við fólk hérna í kring og það eru allir sammála um að það sé ekki hægt að búa við þetta til lengdar,” sagði íbúinn.