Mælingar á flakanýtingu benda til að tölvustýrðir sköfuhnífar fyrir flökunarvélar skili u.þ.b. 0,8% betri nýtingu við vinnslu á meðalstórum þorski og talið er að með búnaðinum verði auðveldara að flaka mjög smáan fisk þ.e. undir 700 grömmum, að því er fram kemur á heimasíðu AVS.
Umtalsverð þróun hefur orðið í hönnun á flökunarvélum á síðustu áratugum þar sem leitast hefur verið meðal annars við að bæta flakanýtingu, auðvelda þrif, gera stillingar nákvæmari, auka sjálfvirkni og gagnasöfnun. Markmið þessa AVS verkefnis var að auka flakanýtingu og gera kleift að vélflaka smærri fisk en áður hefur verið unnt.
Fyrirtækið Fiskvélar og tæki ehf. hefur verið leiðandi í þessari þróun hér á landi síðastliðin áratuginn og hefur meðal annars náð góðum árangri í að breyta hinum þekktu Baader 189 flökunarvélum með því að skipta út vélahlutum og bæta við tölvustýringum á ýmsa hreyfanlega hluta vélarinnar. Vélin hefur skilað mjög góðri nýtingu og það hefur sýnt sig að með henni er hægt að flaka smærri fisk en áður hefur reynst unnt með ásættanlegum árangri. Með það að markmiði að auka enn á flakanýtingu og gera kleift að vélflaka jafnvel enn smærri fisk en áður hefur verið mögulegt var farið af stað í þróunarferli þar sem freista átti þess að koma fyrir tölvustýringum á sköfuhnífa vélarinnar. Nokkuð algengt er að flökunarhnífar í flökunarvélum séu tölvustýrðir, en ekki er vitað til þess að áður hafi verið reynt að setja slíkar stýringar á sköfuhnífa.
Hönnun, smíði og prófanir á búnaðinum lauk á apríl síðastliðnum og frá þeim tíma hefur hann verið í notkun hjá Hraðfrystihúsi Hellissands. Almennt virðist búnaðurinn skila því sem til hans er ætlast þ.s. sköfuhnífarnir virðast fylgja skurðarkúrfunni betur en eldri búnaður og að þeir nái lengra inn að beinum. Einnig lítur út fyrir að aukin hreyfanleiki sköfuhnífanna dragi úr áreiti á fiskholdið.
Mælingar á flakanýtingu benda til að búnaðurinn sé að skila u.þ.b. 0,8% betri nýtingu við vinnslu á meðalstórum þorski og tilfinning þátttakenda er sú að með búnaðinum verði auðveldara að flaka mjög smáan fisk þ.e. undir 700 grömmum.
Ljóst er þó að eftir á að koma meiri reynsla á notkun búnaðarins, auk þess sem þörf er á að mæla flakanýtingu við vinnslu á mismunandi tegundum og stærðarflokkum.
Sjá nánar á www.avs.is