Um 8% af leyfilegum heildarafla í þorski á næsta fiskveiðiári koma ekki til skipta samkvæmt aflahlutdeild. Verður þeim ráðstafað með sérúthlutun. Munar þar mestu um 4.800 tonn af þorski sem tekin hafa verið frá til strandveiða. Í heild verður um 19 þúsund tonnum af botnfiski ráðstafað í sérúthlutun, svo sem í byggðakvóta, línuívilnun, strandveiðar og bætur til skel- og rækjuveiðimanna.
Þetta má lesa út úr nýrri reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út. Í reglugerðinni er tilgreindur hámarksafli í kvótabundnum tegundum á næsta fiskveiðiári. Til viðbótar kemur fram hve miklu er ráðstafað með sérúthlutun. Í þessari reglugerð er strandveiðiafli í fyrsta sinn dreginn frá heildaraflamarki. Heildaraflamarki í flestum tegundum er skipt samkvæmt aflahlutdeild, þ.e. til þeirra sem hafa kvótann. Sérúthlutanir eru hins vegar í fjórum fisktegundum, þorski, ýsu, ufsa og steinbít.
Fyrir fiskveiðiárið 1. september 2010 til 31. ágúst 2011 er leyfilegur heildarafli í óslægðum þorski 160 þúsund tonn. Þar af eru 147.328 tonnum skipt samkvæmt aflahlutdeild. 12.672 tonnum er ráðstafað í sérstakar úthlutanir, eða tæpum 8% af heildaraflamarki. Þessar sérstöku úthlutanir eru 1.545 tonn í skel- og rækjubætur, 2.952 tonn í byggðakvóta, 3.375 tonn í línuívilnun og 4.800 tonn í strandveiðar.
Heildaraflamark í ýsu er 50 þúsund tonn. Um 3.500 tonn fara í sérúthlutanir en um 46.500 tonnum er skipt samkvæmt aflahlutdeild.
Af 50 þúsund tonna heildaraflamarki í ufsa fara tæp 1.800 tonn í sérúthlutanir, þar af 1.200 tonn í strandveiðar.
Steinbítskvótinn er 12 þúsund tonn. Þar af fara 1.237 tonn í sérúthlutanir. Rúmum 10% af heildaraflamarki í steinbít er þannig ráðstafað með sérúthlutun. Línuívilnun í steinbít er aukin milli fiskveiðiára úr 700 tonnum í 900 tonn.