„Margir stóla á að fá vestfirska skötu um jólin og Lionsmenn standa skötuvaktina,“ segir Kári Þór Jóhannsson, formaður Lionsklúbbs Ísafjarðar, en undanfarnar vikur hefur hann ásamt félögum sínum í hreyfingunni verkað skötu í tonnavís.
„Þetta er óhemju vinna í um það bil þrjá mánuði og á þeim tíma komum við saman aðra hvora helgi í það minnsta. Magnið hleypur á nokkrum tonnum en við pössum okkur á að eiga nóg til fyrir alla. Í gegnum ár hefur nefnilega byggst upp töluvert stór fastakúnna hópur sem treystir á að fá sína skötu tímanlega. Skatan fer þannig út um allt land og líka erlendis og þá sérstaklega til Norðurlandanna,“ segir Kári og bætir við að heimamenn geti að sjálfsögðu nálgast skötuna.
„Hún verður afgreidd á hinum hefðbundna stað hjá okkur Svenna en ef við erum ekki báðir á vaktinni þá er allavega annar hvor okkar á staðnum,“ segir Kári.