Það eru liðin 50 ár frá því að tog- og nótaskipið Víkingur AK 100 kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Akranesi. Þessa var minnst á Akranesi í gær með pompi og prakt. Víkingur hefur fært rétt tæplega milljón tonna afla að landi og því leitun að öðru eins happafleyi.
Að sögn Karls Sigurjónssonar, skipaeftirlitsmanns HB Granda á Akranesi, var skipið smíðað í Þýskalandi árið 1960 og var við komuna til landsins meðal stærstu og fullkomnustu fiskiskipa landsins. Víkingur átti þrjú systurskip, Maí GK 346, Frey RE 1 og Sigurð ÍS 33, sem öll reyndust afar vel.
Skipið hefur alla tíð verið gert út frá Akranesi og var upphaflega smíðað sem síðutogari til karfaveiða við Nýfundnaland. Víkingur hefur þó aðallega þjónað sem nótaskip og hefur frá upphafi ýmist verið aflahæsta skipið eða með þeim aflahæstu í sínum flokki. Aflinn á þessari hálfu öld er rúmlega 930 þúsund tonn og þar af er bolfiskaflinn frá togaraárunum um 46 þúsund tonn.
Víkingur hefur undanfarin ár lengst af legið í höfn á Akranesi en að sögn Karls er það klárt á loðnuveiðar. Fyrirtækið á Víking skuldlausan en það sem réttlætir tilveru hans eftir öll þessi ár er eftirfarandi:
„Það er hellingur eftir í þessari sjóborg þó að búnaðurinn sé kominn til ára sinna,” segir Karl.