25. October 2010

Vísir – Smábátasjómenn kanna stofnun eigin lífeyrissjóðs

  • by fg
  • 14 Years ago
  • 0

Landssamband smábátasjómanna (LS) hefur falið framkvæmdastjóra sínum að kanna kosti þess og galla að stofna lífeyrissjóð smábátasjómanna. Þetta var samþykkt á aðalfundi LS fyrir helgina en mikil óánægja kom fram gagnvart lífeyrissjóðnum Gildi sem félagsmenn LS hafa hingað til greitt í.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS skýrði frá fundi stjórnar LS þar sem mikil og þung umræða hefði farið fram um afkomu Gildis lífeyrissjóðs. Stjórnin hefði lýst áhyggjum sínum yfir stöðu sjóðsins.

Örn segir að við skoðun á ársreikningum Gildis lífeyrissjóðs fyrir árin 2008 og 2009 gæti svo farið að eignir sjóðsins rýrni um alls 70 milljarða ef ekkert innheimtist sem gerð væri krafa til, það jafngildir iðgjöldum sjóðfélaga í tvo áratugi.

Framkvæmdastjóri lýsti upplifun sinni á aðalfundi Gildis þar sem hann hefði ekki greint gagnrýna hugsun hjá þáverandi stjórnarformanni sjóðsins Vilhjálmi Egilssyni um að stjórn sjóðsins hefði ekki staðið sig nægjanlega vel.

„ Þá upplifði ég heldur ekki að stjórn sjóðsins hefði áhuga á að gera ársfundi opnari, þ.e. að allir sjóðfélagar hefðu atkvæðisrétt. Það var í sjálfu sér ömurleg tilfinning að sitja fundinn bæði sem sjóðfélagi og fulltrúi hundruða sjóðfélaga og hafa ekki atkvæðisrétt,” segir Örn Pálsson í innleggi sínu til aðalfundar LS en fjallað er um málið á vefsíðu sambandsins.

Í ræðu sinni sagðist Örn hafa upplýst stjórn LS um spurningar frá sér á ársfundi Gildis og svörum sjóðsins. Hann vék sérstaklega að einum þætti þess málefnis:

„Hver er skýring þess að Gildi lífeyrissjóður lánaði Glitni hf, banka í einkarekstri, víkjandi lán að upphæð 3,69 milljarðar?

Hver eða hverjir tóku ákvörðun um þetta lán, hver eða hverjir bera ábyrgðina og hvað lá til grundvallar ákvörðuninni. Hvað gekk mönnum til?

Svar sjóðsins var eftirfarandi:

„Í mars 2008 keypti Gildi breytanlegt/víkjandi skuldabréf af Glitni banka fyrir 3 milljarða króna. Stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignastýringar tóku ákvörðun um kaupin á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir um stöðu bankans. Sjóðurinn telur nú í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið eftir fall bankans að stjórnendur hans hafi gefið rangar upplýsingar um stöðuna. Sjóðurinn rekur nú dómsmál til að fá skuldabréf þetta metið sem almenna kröfu í þrotabú bankans. Einnig verður skoðað hvort höfðað verður skaðabótamál á hendur stjórnendum bankans.”

Örn segir að hér séu menn með allt niðrum sig, alvarleg mistök hafa verið gerð, kallað er eftir ábyrgð stjórnarinnar.

  • facebook
  • googleplus
  • twitter
  • linkedin
  • linkedin
Previous «
Next »

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *